Erlent

Nýr risahringur um Satúrnus

Óli Tynes skrifar
Tölvugerð mynd af risahringnum. Á innfelldu myndinni er Satúrnus með gömlu hringunum sínum. Stærðarmunurinn er augljós.
Tölvugerð mynd af risahringnum. Á innfelldu myndinni er Satúrnus með gömlu hringunum sínum. Stærðarmunurinn er augljós.

Bandarískir stjarnfræðingar hafa komið auga á áður óþekktan hring í kringum Satúrnus sem er margfallt stærri en þeir sem þekktir eru.

Hinn nýfundni hringur teygir sig allt að 13 milljónum kílómetra frá plánetunni. Til samanburðar ná hinir hringirnir mest í 240.000 kílómetra fjarlægð.

Árekstur við loftsteina

Stóri hringurinn er talinn hafa myndast úr grjótmulningi sem þeyst hefur frá tungli Satúrnusar, Föbe, við árekstra loftsteina.

Ástæðan fyrir því að þessi risahringur hefur ekki fundist fyrr er sá að hann er mjög gisinn og endurvarpar litlu ljósi. Hann sést því ekki í venjulegum sjónaukum eða myndavélum.

Tiltölulega hlýtt

Myndirnar sem hafa náðst af honum voru teknar með hinum nýja Spitzer geimsjónauka sem getur tekið innrauðar myndir.

Þótt rykið í hringnum sé mínus 157 gráður er það ekki mikið í fimbulkulda geimsins. Því sendir rykið frá sér „hitageisla" sem sjást með innrauðum linsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×