Innlent

Eymdarvísitala Moody's: Ísland í sjöunda sæti

Lánsmatsfyrirtækið hefur tekið upp á því að birta vísitölu sem þeir kalla „Misery Index" sem þýða mætti sem Eymdarvísitölu. Þar er fjárlagahalli ríkis lagður saman við atvinnuleysi í viðkomandi landi og ríkjum raðað eftir því. Ísland lendir samkvæmt þessu viðmiði í sjöunda sæti með eymdarvísitölu upp á rúmlega tuttugu prósent.

Spánverjar tróna á toppnum sem í þessu tilviki er ekki sérstaklega eftirsóknarvert en þar á bæ glíma menn við gríðarlegt atvinnuleysi og nokkurn fjárlagahalla. Lettar eru í öðru sæti og Litháar í því þriðja. Írar, Grikkir og Bretar koma þar á eftir og í sjöunda sæti eru Íslendingar. Þar á eftir koma Bandaríkjamenn og Jamæka er í því tíunda.

Eymdarvísitalan hefur ekki verið reiknuð með þessum hætti áður en á sjötta og sjöunda áratugi síðustu aldar var vísitölunni nokkuð flaggað, en þá var atvinnuleysi reiknað saman með verðbólgu.

Jimmy Carter notaði Eymdarvísitöluna mikið í kosningabaráttu sinni árið 1976 gegn Gerry Ford og sagði að enginn forseti ætti rétt á að sitja í embætti með svo háa eymdarvísitölu en þá mældust bandaríkin með 13,57 prósent. Þetta kom í bakið á Carter því að í næstu kosningum stóð vísitalan í tæpum 22 prósentum og Ronald Reagan fór með sigur af hólmi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×