Erlent

Tugþúsundir flýja eldfjall á Filipseyjum

Óli Tynes skrifar
Mayon er byrjað að gjóa glóðaraugum á byggðina fyrir neðan.
Mayon er byrjað að gjóa glóðaraugum á byggðina fyrir neðan.

Yfirvöld á Filipseyjum byrjuðu í dag að flytja um fimmtíu þúsund manns í Albay héraði þar sem eldfjallið Mayon er talið um það bil að gjósa. Það er um 500 kílómetra sunnan við höfuðborgina Manila.

Mayon er virkasta eldfjall Filipseyja og hefur gosið fjörutíu og níu sinnum síðan gos í því var fyrst skráð árið 1616.

Í öllum þessum gosum hefur náttúrlega safnast þykkt lag af ösku utan á hlíðar fjallsins. Í desember árið 2006 fórust yfir eittþúsund manns þegar ausandi rigning hleypti af stað mikilli aurskriðu.

Fjallið hefur undanfarið verið að senda frá sér gjóskugusur og jarðskjálftar verða fleiri og sterkari.  Það er líka farið að sjást í glóandi hraun á toppi fjallsins. Jarðfræðingar telja því víst að eldgos hefjist alveg á næstunni.

Á næstunni í jarðfræði getur raunar þýtt dagar eða vikur. Yfirvöld vilja hinsvegar hafa allan varann á og því er strax byrjað að flytja fólk á brott frá hættusvæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×