Innlent

Óvæntur ESB stuðningur frá Bretum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þarf að afgreiða umsókn Íslands á mettíma til þess að aðildarviðræður geti hafist í byrjun næsta árs. Utanríkisráðherra vonast til þess að svo verði.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu einróma á fundi sínum í Brussel í morgun að vísa aðildarumsókn Íslands til framkvæmdastjórnar Sambandsins.

Hollendingar vildu þó setja afgreiðslu málsins í samhengi við Icesave deiluna en Íslendingar fengu hins vegar stuðning úr óvæntri átt frá Bretum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun leggja mat á umsókn Íslands en slíkt ferli hefur aldrei tekið skemmri tíma en 14 mánuði. Össur vonast hins vegar til þess að aðildarviðræður geti hafist í byrjun næsta árs - en til þess að svo verði þarf framkvæmdastjórnin að meta umsókn íslands á mettíma.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði á blaðamannfundi í morgun að Íslendingar gætu ekki vænst flýtimeðferðar inn í sambandið. Þá gæti það einnig vakið upp töluverða gremju meðal þeirra ríkja á Balkanskaganum - sem þegar hafa lagt inn umsókn - ef Ísland verður tekið inn í sambandið á undan þeim.

Ekki liggur fyrir hverjir munu eiga sæti í samninganefnd Íslands. Össur vill ná víðtækri sátt um það mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×