Erlent

Ráðstefna um nasistaþýfi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Rúmlega áttræður gyðingur sem flúði frá Austurríki ásamt fjölskyldu sinni árið 1938 reynir nú að nálgast listmuni sem nasistar stálu frá afa hans.

Thomas Selldorff sá sér ekki annað fært en að leggja á flótta þegar nasistar hertu tök sín á Austurríki árið 1938, ári áður en síðari heimsstyrjöldin braust út. Hann komst undan ásamt fjölskyldu sinni en nasistar fóru ránshendi um eigur fjölskyldu hans, þar á meðal rúmlega 200 listaverk sem afi hans hafði safnað um sína daga.

Í þessari viku hefst í Prag í Tékklandi ráðstefna þar sem fulltrúar 49 landa og ýmissa alþjóðlegra stofnana koma saman og undirrita samning sem gengur út á að ríkin taki höndum saman við að koma listmunum, sem nasistar stálu, í hendur réttra eigenda, eða erfingja þeirra, á ný.

Sérfræðingar telja mörg þúsund listaverk og dýrgripi af ýmsum toga enn á flækingi eftir að þeim var stolið í stríðinu eða árunum fyrir það og nefna þar á meðal nokkur málverk eftir austurrísku málarana Gustav Klimt og Egon Schiele. Meðal þess sem nasistar stálu á kerfisbundinn hátt voru yfir 650.000 list- og trúarmunir í eigu gyðinga.

Selldorff og fjölskylda hans, ásamt fjölda annarra, vonast nú eftir að endurheimta megi eitthvað af þessum munum sem margir hverjir voru seldir á svörtum markaði eftir stríð.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×