Innlent

Hrikalegt að missa ævistarfið

innbrot Brotist var inn á heimili Þorleifs Friðrikssonar í Kópavogi. 
Fréttablaðið/Vilhelm
innbrot Brotist var inn á heimili Þorleifs Friðrikssonar í Kópavogi. Fréttablaðið/Vilhelm

„Þetta er alveg skelfilegt. Ef ég gæti bara fengið innvolsið úr annarri hvorri tölvunni til baka yrði ég mjög hamingjusamur og myndi borga gull og græna skóga,“ segir Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur.

Brotist var inn á heimili Þorleifs og fjölskyldu í Kópavoginum á föstudaginn og stolið þaðan meðal annars tveimur fartölvum, flakkara og minniskubbi sem innihéldu lokahandrit að öðru bindi sögu Dagsbrúnar, sem Þorleifur hefur nýlokið við að skrifa, en fyrsta bindið kom út fyrir tveimur árum.

„Það er hrikalegt að missa ævistarfið sitt á þennan hátt. Þetta er grundvallarrit í íslenskri verkalýðssögu,“ segir Þorleifur.

Auk þess að hafa á brott með sér tölvurnar og fylgihluti tóku þjófarnir skartgripi í eigu eiginkonu Þorleifs, doktorshringinn hans og gullbakka frá átjándu öld. „Gullbakkinn er gamall ættargripur sem átti að fara á Þjóðminjasafnið. En þetta eru einungis hlutir og því léttvægir. Í tölvunum voru hins vegar mörg ár af vinnu, og til viðbótar frumsamin tónlist eftir son minn, sem er tónlistarmaður.“

Þorleifur segist hafa lært af tíðum frásögnum af innbrotum í fjölmiðlum. „Ég hafði vistað öll skrifin á fjórum stöðum, þar á meðal á Macintosh-tölvu sem hrundi rétt fyrir helgi. Það er greinilega erfitt að verja sig fyrir svona uppákomum í þessu þjóðfélagi,“ segir Þorleifur.

Þeir sem gætu gefið vísbendingar um hvar handritið að bók Þorleifs er að finna eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×