Erlent

Kalla alnæmisskimun „ástarprufur“

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Frá Svasílandi.
Frá Svasílandi.

Alþjóðlegu góðgerðasamtökin PSI reyna nú nýjar leiðir til að vinna gegn HIV í Svasílandi í Afríku. Þau segjast vilja færa sig burt frá hræðsluáróðri, sem samtökin segja að virki ekki, og einbeita sér frekar að ástinni.

Að sögn talsmanns PSI er hætta á að elskendur segi hvor öðrum síður frá niðurstöðum alnæmisskimunar ef þeir fari einir í skoðun og fái ekki þá aðstoð sem þeir þurfa. PSI hvetja þannig pör til að fara saman í svokallaðar ástarprufur, en það kalla samtökin skimunina sem fólki stendur til boða.

Talsmaðurinn segir sérstaklega erfitt að fá karlmenn til að mæta í skoðun, þar eð þeim finnist vegið að karlmennsku sinni með því. Því reyni samtökin að ná til þeirra á óvenjulegum stöðum, til dæmis hjá dýralæknum og í kirkjum.

Ástarprufurnar taka stuttan tíma, eða innan við klukkutíma með viðtali sem pörunum stendur til boða. Reynist annar eða báðir elskendurnir smitaðir býðst þeim að sækja ráðgjöf sér að kostnaðarlausu.

Átak PSI í Svasílandi er fjármagnað af bandarísku ríkisstjórninni og stendur út árið. Samtökin starfa einnig með góðgerðasjóði Bill & Melindu Gates, sem gefið hefur háar fjárhæðir til að hvetja til umskurnar á körlum til að draga úr smithættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×