Innlent

Þurfum sértækar aðgerðir í kreppunni

Þórunn Sveinbjarnardóttir styður sértækar aðgerðir til að laða erlenda fjárfesta að landinu. Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ívilna álfyrirtæki.
Þórunn Sveinbjarnardóttir styður sértækar aðgerðir til að laða erlenda fjárfesta að landinu. Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ívilna álfyrirtæki.

Umhverfisráðherra er ekki ósátt við ákvörðun iðnaðarráðherra um að láta staðfesta fjárfestingasamning vegna allt að 360.000 tonna álvers í Helguvík.

Össur Skarphéðinsson greindi frá því í blaðinu á laugardag að hann hefði tekið þessa ákvörðun í lok síðasta árs og að hún væri forsenda þess að erlendir bankar veittu lán til framkvæmda þar.

Þórunn var spurð hvort þetta þýddi ekki að Samfylkingin hefði getað komið í veg fyrir álversframkvæmdirnar. Svarar hún því til að löngu hafi verið búið að taka ákvörðun um álverið og öll leyfi hafi legið fyrir. En fjármögnun verkefnisins hafi verið komin í uppnám og samningurinn snúist um niðurfellingu gjalda og skattaívilnanir.

„Það er vissulega umdeilanlegt hvort ríkisvaldið eigi að beita sér með þessum hætti. En við þurfum að horfast í augu við þá erfiðu staðreynd að Ísland hefur ekki það lánstraust sem það hafði áður og þá þurfum við að beita sértækum aðgerðum. Ég er þeirrar skoðunar að eins og staðan er núna í íslensku efnahagslífi beri ríkisvaldinu að hafa atvinnustefnu sem miðar að því að laða erlenda fjárfesta að landinu. Þetta gæti verið fordæmi fyrir fleiri slíka gjörninga, allra handa atvinnustarfsemi.“ Aðspurð segist Þórunn hvorki vera að tala um að fleiri álver verði samþykkt né að Helguvíkurálverið sé æskilegt sem slíkt.

Samningurinn hafi verið kynntur fyrir sér og ríkisstjórn, en Þórunn svarar ekki hvort nokkur mótmæli hafi verið við honum. Engin ný ákvörðun hafi verið tekin nú.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×