Lífið

Björk á heilsuhæli í Litháen

Náttúrutónleikar í Laugardal
Björk fékk hnút á raddböndin á Náttúrutónleikunum og dvaldi um tíma á heilsuhæli í Litháen.
Náttúrutónleikar í Laugardal Björk fékk hnút á raddböndin á Náttúrutónleikunum og dvaldi um tíma á heilsuhæli í Litháen.

Björk Guðmundsdóttir fékk hnút á raddböndin á eftirminnilegum Náttúrutónleikum sínum í Laugardal í sumar. Hún hefur síðan glímt við erfiðleika með rödd sína og ekki náð fullum bata. Þetta kom fram áramótaviðtali hennar við Ævar Kjartansson á Rás 1.

Björk segir í viðtalinu frá því að þetta sé í fyrsta skipti sem hún hafi fengið hnút á raddböndin. Hún hafi þó náð að klára tónleikana með herkjum. Björk segist hafa farið til Englands daginn eftir Náttúrutónleikana þar sem hún dvaldist næstu tvær vikurnar og hitti sérfræðinga og lækna til að reyna að fá meina sinna bót. Eftir það dvaldist hún á heilsuhæli í Litháen, „af öllum stöðum,“ eins og hún orðar það sjálf. „Og sat þar bara og mátti ekki tala.

Var bara með svona blokk að skrifa allt niður, meira að segja við dóttur mína,“ sagði Björk.

Björk segir að til allrar hamingju þurfi hún ekki að fara í aðgerð vegna þessa. Hún er aftur á móti á leið til New York í sérstaka þjálfun til „sönglæknisins“ síns.

Í umræddu viðtali, sem heyra má á ruv.is, segir Björk jafnframt að á þessum tíma hafi henni gefist ráðrúm til að sinna öðrum hugðarefnum sínum. Þar á hún við eftirtektarvert starf sitt við að hlúa að nýsköpun á erfiðum tímum hér á landi.- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.