Innlent

Velferðin ráði regluverki fjármálanna

mannlíf Árni Páll vill skoða samspil bóta og lægstu launa.
fréttablaðið/stefán
mannlíf Árni Páll vill skoða samspil bóta og lægstu launa. fréttablaðið/stefán
Félagsmálaráðherra segir að sjónarmið velferðarþjónustunnar eigi að ráða því hve lausan taum fjármálamarkaðurinn fær. Frumvarp um endurskoðun atvinnuleysistrygginga verður lagt fram í haust. Niðurskurðarvinnan er hafin.

Árni Páll Árnason félagsmála­ráðherra segir að endurskipuleggja þurfi það kerfi sem lýtur að fjármálum og markaði hér á landi. Allt of lengi hafi það verið þannig að velferðarmálin hafi enga aðkomu haft að því kerfi. Því verði að breyta þannig að velferðar­sjónarmiðin ráði meiru. Þegar kreppi að hafi sýnt sig að velferðarkerfið þurfi að borga.

„Það er náttúrlega einfaldlega þannig þegar horft er til baka á þessar erfiðustu kreppur sem við höfum gengið í gegnum, að þær eru vegna hruns á fjármála­markaði. Þær eru ekki vegna hruns á vinnumarkaði. Við höfum alltaf verið að nálgast hlutina út frá því að það þurfi að passa að hafa svo opinn og sveigjanlegan vinnumarkað, sem er alveg rétt, og haft áhyggjur af því hvort við ýtum undir atvinnuleysi með þessu eða hinu. En allir þessir mælikvarðar verða hálfhjákátlegir þegar horft er á það gríðarlega tjón sem orðið hefur,“ segir Árni Páll.

Hann segir samfélagslegt tjón gríðarlega mikið og efast um að regluverk og áhættumat hafi verið með eðlilegum hætti á fjármálamarkaðnum.

Árni spyr hvort ekki sé eðlilegt að félagsmálaráðuneytið komi meira að því að marka leikreglur markaðarins þar sem velferðarkerfið beri kostnaðinn við sam­félags­hrunið.

Á milli ráðuneytanna sem sinna markaðnum og markaðsins sjálfs geti myndast óeðlilega náið samband. Þá þurfi að hafa talsmenn annarra sjónarmiða við borðið, þar hljóti menn að horfa til þess ráðuneytis sem fer með velferðarmálin.

„Aftur og aftur lendum við í kreppu vegna þess að menn missa sjónar á því sem mestu skiptir, í einhverri bólukenndri fjármálastarfsemi. Alltaf er það velferðar­kerfið sem þarf að taka við. Sjónarmið velferðarþjónustunnar ættu að ráða því hversu lausan tauminn við gefum fjármálamarkaðnum á hverjum tíma. Áhættumatið á að vera víðara og stærra, það á ekki alltaf að einblína á þennan eina markað; fjármálamarkaðinn.

Reynslan er sú að hrun á honum veldur gríðarlegu samfélagstjóni annars staðar hjá varnarlausu fólki. Og menn hafa kannski alltaf verið með skökk módel í hausnum í þessu áhættumati, menn hafa bara verið að hugsa: hver er áhættan fyrir bankana? ekki: hver er áhættan fyrir þjóðarbúið, hver er áhættan fyrir atvinnustigið og blásaklaust fólk sem missir vinnuna?“
ÁRNI PÁLL ÁRNASON Félagsmálaráðherra segir að regluverk fjármálamarkaðar hafi of mikið miðast við markaðinn sjálfan. Velferðarkerfið þurfi að borga þegar hrunið verður og því sé eðlilegt að taka einnig tillit til þess.FRÉTTABLAÐIÐ/anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×