Innlent

Sjálfstæðismenn vilja Geir í prófkjör

Geir Sveinsson
Geir Sveinsson

Geir Sveinsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í handbolta, og tengdasonur borgarfulltrúans Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar gæti verið á leiðinni í prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar á næsta ári. Annaðhvort fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða jafnvel nýtt framboð eftir því sem heimildir fréttastofu herma.

Geir vildi lítið tjá sig um málið þegar haft var samband við hann. Hann gekkst þó við því að menn hefðu komið að máli við hann vegna komandi prófkjörs og borgarstjórarkosninga.

DV birti frétt á dögunum um að Geir væri á leiðinni í prófkjör fyrir Sjálfstæðisflokkinn en heimildir fréttastofu herma að einnig hafi verið haft samband við hann og hann beðinn um að leiða nýtt framboð sem stefni að því að koma tveimur til þremur mönnum í borgarstjórn.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst mun Geir stefna á oddvitasætið hjá Sjálfstæðisflokknum ef hann ákveður að taka prófkjörslag á þeim bænum og fara þannig beint gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×