Innlent

Engin þíða í samskiptum Íslendinga við bresk stjórnvöld

Íslandsvinirnir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Alistair Darling, fjármálaráðherra. MYND/AFP
Íslandsvinirnir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Alistair Darling, fjármálaráðherra. MYND/AFP

Breska sjónvarpsstöðin Sky segir að engin þíða sé í samskiptum við Íslendinga sem séu breskum stjórnvöldum ævareiðir fyrir framgöngu þeirra í bankahruninu.

Sky segir frá þeirri ákvörðun skilanefndar Kaupþings að höfða mál vegna beitingar hryðjuverkalaganna hinn áttunda október síðastliðinn þegar íslenska bankakerfið riðaði til falls.

Sky getur þess að tilkynnt hafi verið um málshöfðunina í yfirlýsingu frá íslenska forsætisráðuneytinu þar sem þess sé getið að skilanefndin njóti fyllsta stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar.

Fréttastöðin segir að Íslendingar séu ævareiðir yfir því að vera beittir hryðjuverkalögum. Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi ítrekað vísað til þess næstu vikurnar á eftir og ávalt talað um þann möguleika að höfða mál.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins segir í samtali við Sky að þeim hafi ekki borist tilkynning um málshöfðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×