Innlent

25 til 31 fulltrúi sitji stjórnlagaþingið

Laun stjórnlagaþingmanna verða mest 472 þúsund krónur á mánuði.
Laun stjórnlagaþingmanna verða mest 472 þúsund krónur á mánuði.
Stjórnlagaþing kostar minnst 362,3 milljónir og mest 442 milljónir samkvæmt frumvarpi sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði fram á þingi í gær. Gert er ráð fyrir að starfstími þingsins verði átta til ellefu mánuðir. Kostar hver mánuður um 30 milljónir króna auk þess sem stofnkostnaður verður um 38 milljónir króna. Þriðji kostnaðarliðurinn, um 50 milljónir, er kostnaður við að útbúa og dreifa kynningarefni um frambjóðendur.

Þingið á að skipa minnst 25 fulltrúa og mest 31. Ef til þingsins kjósast minna en 40 prósent af öðru kyninu verður sex fulltrúum bætt við. Gert er ráð fyrir að 11,8 milljónir króna fari í launakostnað til þingfulltrúa á mánuði. Þingmenn fái því 472 þúsund krónur á mánuði ef fulltrúar eru 25. Ef fulltrúar eru 31 verða þau 381 þúsund krónur, samkvæmt kostnaðaráætlun.

Gert er ráð fyrir að kosið verði til þingsins samhliða sveitarstjórnakosningum árið 2010. Kjörgengir eru þeir sem kjörgengir eru til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar eru þó ekki kjörgengir.

Þingið, sem á að vera ráðgefandi, á að koma saman eigi síðar en 17. júní 2010 og ljúka störfum 17. febrúar 2011. Getur þingið þó ákveðið að ljúka störfum fyrr. Forsætisnefnd stjórnlagaþings skal hafa eftirlit með því að kostnaður við þingið rúmist innan fjárlaga.

- vsp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×