Innlent

Launabarátta sem skilaði sér

Allir flokksstjórar Vinnuskóla Garðabæjar eru háskólanemar eða með háskólagráðu og fengu 162.017 krónur á mánuði.fréttablaðið/hrönn
Allir flokksstjórar Vinnuskóla Garðabæjar eru háskólanemar eða með háskólagráðu og fengu 162.017 krónur á mánuði.fréttablaðið/hrönn
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á þriðjudag að greiða flokksstjórum í Vinnuskóla þar í bæ 15 klukkustunda yfirvinnu á tímabilinu júní til júlí. Einnig verður þeim boðið að framlengja ráðningarsamninga sína til 7. ágúst. Þetta var gert til að koma til móts við kröfur flokksstjóranna sem töldu sig hlunnfarna í launamálum.

Flokksstjórarnir voru með um 162 þúsund krónur í mánaðarlaun og engin yfirvinna var í boði. Atvinnuleysisbætur eru rétt tæplega 150 þúsund krónur. Vildu flokksstjórarnir meina að þetta væru afar ósanngjörn laun þar sem þeir bæru ábyrgð á börnum á aldrinum 14 til 16 ára. Allir flokksstjórarnir eru annaðhvort háskólanemar eða útskrifaðir úr háskóla.

Nágrannasveitarfélögin buðu hins vegar töluvert betri laun. Sömu grunnlaun voru hjá Álftanesi og Hafnarfirði en í þeim sveitarfélögum var þeim boðin yfirvinna. Tuttugu tímar á mánuði á Álftanesi og tíu í Hafnarfirði. Reykvískir flokksstjórar fengu um 170 þúsund krónur á mánuði auk 7.000 króna í matarpening. Kópavogur greiddi starfsmönnum sínum rétt um 190 þúsund krónur og Mosfellsbær um 166 þúsund.

Auk launa þótti flokksstjórum ósanngjarnt að vera aðeins ráðnir til 1. ágúst, en starfsmenn Áhaldahúss Garðabæjar voru ráðnir út ágúst.- vsp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×