Innlent

Níu stöðvaðir án ökuréttinda

Níu réttindalausir ökumenn voru stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Að sögn lögreglu höfðu fimm þeirra þegar verið sviptir ökuleyfi og fjórir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Á sama tímabili voru fimmtíu umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar en þrjú þeirra má rekja til aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

„Flest óhöppin voru minniháttar en í fáeinum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í sjö tilfellum var um afstungu að ræða," segir lögreglan í tilkynningu.

Þá kemur fram að ellefu ökumenn hafi verið teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Sex voru stöðvaðir á laugardag, fjórir á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Tíu voru teknir í Reykjavík og einn í Hafnarfirði. Um var að ræða tíu karla á aldrinum 18-65 ára og eina konu, 21 árs.

Á sama tímabili tók lögreglan þrjá ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna en þeir voru allir stöðvaðir í Reykjavík. Um var að ræða tvo karla, 28 og 34 ára, og eina konu, 18 ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×