Erlent

Obama sækir verðlaunin en móðgar Norðmenn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Barack Obama Bandaríkjaforseti kom til Óslóar fyrir stundu til þess að taka við Friðarverðlaunum Nóbels, sem eru 1,4 milljónir dollara, gullpeningur og heiðursskjal. Forsetinn stoppar í 26 klukkustundir í Ósló. Hann byrjar á að hitta konungshjónin en sækir svo verðlaunaathöfnina sem er síðdegis. Gríðarleg öryggisgæsla er í borginni með þátttöku á þriðja þúsund lögreglumanna. Herþyrlur eru á sveimi, víða eru vegatálmar og er áætlaður kostnaður vegna gæslunnar um tveir milljarðar íslenskra króna.

Obama hefur þegar stytt viðdvöl sína í Noregi og aflýst þátttöku í ýmsum viðburðum og taka margir Norðmenn því sem móðgun, jafnvel móðgun við Nóbelsverðlaunin sjálf. Talsmenn forsetans segja hins vegar að hann sé mjög önnum kafinn, meðal annars vegna loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn en þangað fer Obama frá Ósló. Víða hafa heyrst gagnrýnisraddir um að þjóðhöfðingi sem á í stríði í tveimur löndum taki við friðarverðlaunum. Þá hafa aldrei færri Bandaríkjamenn stutt Obama en stuðningur við hann, samkvæmt síðustu könnunum, mælist slétt 50 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×