Erlent

Landtaka hindrar viðræður

Rýnt í Teikningar útrýmingarbúða Benjamín Netanjahú skoðar ásamt Ralph Georg Reuth, sagnfræðingi í Berlín, frumeintök af teikningum nasista að útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Netanjahú fékk þessar teikningar afhentar í gær.fréttablaðið/ap
Rýnt í Teikningar útrýmingarbúða Benjamín Netanjahú skoðar ásamt Ralph Georg Reuth, sagnfræðingi í Berlín, frumeintök af teikningum nasista að útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Netanjahú fékk þessar teikningar afhentar í gær.fréttablaðið/ap

Forsætisráðherra Ísraels hefur í vikunni heimsótt bæði bresk og þýsk stjórnvöld ásamt því að hitta George Mitchell, erindreka Bandaríkjastjórnar gagnvart Mið-Austurlöndum.

Jafnt Mitchell sem Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, og Angela Merkel Þýskalandskanslari hafa lagt hart að Netanjahú að gera allt sem í hans valdi stendur til að hægt verði að hefja á ný friðar-viðræður við Palestínumenn. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að finnast lausn á deilum um landtöku Ísraela á hernumdu svæðunum, bæði á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.

„Við verðum að ná framförum í friðarferlinu,“ sagði Merkel á sameiginlegum blaðamannafundi með Netanjahú í Berlín í gær, „og stöðvun landnámsins er mjög mikil-væg.“

Á þessum blaðamannafundi lögðu þau bæði jafnframt áherslu á að stjórnvöld í Íran stöðvi kjarnorkuáætlanir sínar, ella megi þau eiga von á harðari refsiaðgerðum.

Ísraelar hafa miklar áhyggjur af kjarnorkuáformum Írans. Orðrómur hefur verið um að Bandaríkjastjórn hafi lofað Netanjahú því að þrýsta harðar á Írana gegn því að Ísraelar stöðvi landtökuframkvæmdir. Netanjahú segir hins vegar ekkert hæft í þeim orðrómi.

Bandaríkjastjórn hefur gefið Írönum frest fram í miðjan september, en um það leyti hefst einnig Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.

Daginn áður höfðu bæði Ísraelar og Palestínumenn gefið í skyn að hugsanlega myndu leiðtogar þeirra, þeir Netanjahú og Mahmoud Abbas, hittast á Allsherjarþinginu.

Netanjahú virðist gera sér vonir um að hefja viðræður við Abbas þar, en Palestínumenn hafa til þessa sagt að viðræður geti ekki hafist fyrr en Ísraelar verði við kröfu Bandaríkjastjórnar um að stöðva allar nýframkvæmdir í landtökubyggðum.

Heimsókn Netanjahús til Þýskalands varð einnig tilefni til að minna á helför gyðinga á tímum nasista. Honum voru meðal annars færð frumeintök af teikningum nasista að útrýmingarbúðunum í Auschwitz, sem fundust í Berlín á síðasta ári. Þessar teikningar verða til sýnis í Helfararsafninu Yad Vashim í Jerúsalem.

„Þeir eru til sem neita því að helförin hafi átt sér stað,“ sagði Netanjahú við þetta tækifæri. „Þeir ættu að koma til Jerúsalem og skoða þessar teikningar, þessi plön um verksmiðju dauðans.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×