Innlent

Hæfniskröfur rýmkaðar og aðstoðarbankastjóra bætt við

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis leggur til í nefndaráliti að stöðu aðstoðarseðlabankastjóra verði bætt við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á yfirstjórn Seðlabankans og stjórn peningamála. Gert er ráð fyrir að hann verði staðgengill seðlabankastjóra. Hæfniskröfur stjórnenda bankans verða rýmkaðar. Þetta kom fram í máli Álfheiðar Ingadóttur, formanns nefndarinnar, á Alþingi í dag.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja endurreisn á trausti á Seðlabankanum og þeirri peningastefnu sem hann fylgir. Í stað þriggja seðlabankastjóra verður einn skipaður að undangenginni auglýsingu ásamt aðstoðarseðlabankastjóra. Að auki verður skipuð peningastefnunefnd sem tekur allar ákvarðanir um beitingu stjórnartækja bankans.

Meirihlutinn leggur til að umsækendur um störf seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum. Að auki búi viðkomandi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum.

Gert er ráð fyrir að aðstoðarseðlabankastjóri taki sæti í peningastefnunefndinni.

Þá er lagt að fundargerðir nefndarinnar verði gerðar opinberar. Álfheiður segir að slíkt tíðkist bæði í Bretlandi og Svíþjóði. Þannig eigi að auka gegnsæi og trúverðugleika nefndarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×