Innlent

Fær átta milljónir vegna vélsleðaslyss

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Eigandi vélsleða var dæmdur til þess að greiða stúlku rúmlega átta milljónir króna í bætur vegna slyss sem hún varð fyrir er hún ók vélsleðanum. Slysið átti sér stað árið 2002 við Hafravatn og féll hún af sleðanum og fékk þungt höfuðhögg. Eigandi vélsleðans er talin hafa borið ábyrgð á því að stúlkan sem þá var sautján ára gömul hafi ekki verið með hjálm.

Hinn 10. mars 2002 fór stúlkan ásamt manninum og kærasta sínum, syni stefnda, að Hafravatnsvegi. Í þeirri ferð ók stúlkan vélsleða, af gerðinni Kawazaki, og kastaðist hún af sleðanum og slasaðist. Vélsleðinn var ótryggður, en maðurinn var eigandi hans. Ágreiningur var með aðilum um aðdraganda ferðarinnar og atvik á Hafravatnsvegi þegar slysið varð. Stúlkan kastaðist af sleðanum og lenti á snjóskafli. Við það hlaut hún nokkuð þungt höfuðhögg.

Við höggið höfuðkúpubrotnaði stúlkan og blæddi inní kúpuna en hún marðist einnig á heila. Vegna þess þurfti hún að undirgangast nokkrar aðgerðir og m.a. var fjarlægt skemmt svæði úr heila stúlkunnar.

Flogaveiki og þunglyndi

Stúlkan hélt því fram fyrir dómi að afleiðingar slyssins á heilsufar hennar hefðu verið verulegar, bæði líkamlegar og andlegar. Líkamlegar afleiðingar slyssins séu fyrst og fremst verulegur heilaskaði sem sé einnig rót hluta andlegra afleiðinga slyssins. Meðal andlegra afleiðinga megi nefna persónuleikabreytingar, þunglyndi og kvíða, áráttu­hegðun o.fl. Sömuleiðis hafi veruleg seinkun orðið á skólagöngu stefnanda vegna andlegra afleiðinga slyssins, auk þess sem hún hafi misst hlutastarf sitt vegna þeirra. Þá hafi stefnandi farið að finna fyrir flogum árið 2005 og síðan verið greind með flogaveiki, sem talin sé bein afleiðing slyssins.

Í dómi hérðasdóms kemur fram að hjálmur hefði komið í veg fyrir afleiðingar slyssins. Þar segir að stúlkunni hafi ekki staðið til boða hjálmur og telja verið að á manninum hafi hvílt sú skylda að sjá til þess að öryggisbúnaður væri fyrir hendi og notaður.

Eins og fyrr segir var maðurinn dæmdur til þess að greiða stúlkunni rúmar átta milljónir króna með 4,5% vöxtum en slysið átti sér stað árið 2002.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×