Innlent

Farið fram á forsjársviptingu

Bragi Guðbrandsson
Bragi Guðbrandsson

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu segir það liggja fyrir að barnverndarnefnd fari fram á forsjársviptingu foreldra stúlkunnar sem misnotuð var af föður sínum ítrekað. Faðirinn fékk tveggja ára fangelsisdóm í síðustu viku en málið hefur vakið talsverða athygli fjölmiðla. Bragi segir stúlkuna fá alla þá meðferð sem hægt sé að veita og segir dóminn marka tímamót hér á landi. Bragi var gestur í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

„Þetta er í fyrsta skipti sem að dómur fellur gegn eindreginni neitun hans án þess að það liggi fyrir afgerandi læknisfræðileg sönnunargögn en á grundvelli frásagnar barnsins," sagði Bragi sem benti á hversu ung stúlkan er en hún er þriggja og hálfs árs gömul í dag.

„Þetta á sér enga hliðstæðu hér á landi og ég efast um að svo sé erlendis. Ég var í Kænugarði á ráðstefnu í síðustu viku þar sem voru sérfræðingar frá mörgum evrópuríkjum í þessum málum, þeir gátu ekki bent á víðlika dæmi. Þetta er því til mikils sóma," sagði Bragi.

Hann sagði mikilvægast fyrir stúlkuna að fá bestu meðferð sem í boði væri en hún fær aðstoð færustu sérfræðinga í þessum málum. Hann sagði sum börn koma heil út úr svona lífsreynslu en því miður sé það ekki alltof svo. „Við verðum að vona það besta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×