Innlent

Leita að vitnum að íkveikju á Akranesi

Að kvöldi laugardagsins 14. febrúar var slökkvilið og lögreglan á Akranesi kölluð til vegna bruna að Dalbraut 1 á Akranesi. Eldur var laus í nýbyggingu við húsið, sem hýsa á Bæjarbókasafn Akraness. Í byggingunni eru m.a. verslunin Krónan og Penninn / Eymundsson.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að vettvangsrannsókn hafi leitt í ljós að brotist hefur verið inní nýbygginguna og kveikt í á fleiri en einum stað innandyra. Mikið tjón varð af eldi og reyk í húsinu og einnig í verslun Pennans.

Lögreglan á Akranesi óskar eftir því að allir þeir sem einhverjar upplýsingar geta gefið um málið s.s. mannaferðir við bygginguna að kvöldi laugardagsins 14. febrúar hafi samband við lögregluna í síma 444 0111.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×