Innlent

Rauði krossinn ræðst gegn einelti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einelti getur verið vandamál bæði á vinnustöðum og í skólum.
Einelti getur verið vandamál bæði á vinnustöðum og í skólum.

Hjálparsími Rauða krossins stendur fyrir átaksviku gegn einelti þessa vikuna. Átakið hófst í gær og því líkur á laugardaginn. „Tvisvar á ári erum við með svokallaðar átaksvikur. Seinast vorum við með greiðsluerfiðleika. Áður höfum við verið með samkynhneigð, átröskun og fleira og núna ákváðum við að taka einelti fyrir," segir Fjóla Einarsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparsímans.

„Þessar átaksvikur hafa alltaf skilað því að fólk sem á í erfiðleikum, með sérstök vandamál, hefur tekið eftir þessu. Fólk sem hefur ekki þorað að opna sig og segja frá ákveður að hringja," segir Fjóla. Hún segist vona að sú vika sem nú er í vændum skili því að fólk hringi og opni sig þannig að hægt sé að hjálpa því að fá úrlausn á sínum vandamálum.

Fjóla segir að sjálfboðaliðar Hjálparsímans sæki fræðslu víðsvegar að. Til dæmis frá sálfræðingi Rauðakrossins, Regnbogabörnum og Jerico. Þá hafi sjálfboðaliðar farið á málþing um rafrænt einelti.

Í tilkynningu frá Hjálparsímanum segir að tilgangurinn með átaksvikunni að þessu sinni sé að minna þá sem orðið hafa fyrir einelti að þeir geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í Hjálparsímann 1717. Einnig sé ætlunin að hvetja til umræðu í þjóðfélaginu um afleiðingar eineltis jafnframt því að benda á leiðir til úrlausnar.

Númerið er sem fyrr segir 1717. Það er gjaldfrjálst að hringja og síminn opinn allan sólarhringinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×