Innlent

Útgreiðslan skerðir atvinnuleysisbætur

þetta verður skoðað
„Ég mun óska eftir því að þetta verði sérstaklega skoðað,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra.
þetta verður skoðað „Ég mun óska eftir því að þetta verði sérstaklega skoðað,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra.

Atvinnulaust fólk sem er í greiðsluvanda og tekur út séreignarlífeyrissparnað, til dæmis til að greiða niður skuldir, getur átt von á því að útgreiðslan skerði atvinnuleysisbætur í þeim mánuði sem sparnaðurinn er tekinn út nema reglum verði breytt.

Sveinn Markússon handverksmaður er atvinnulaus. Hann átti séreignarlífeyrissparnað sem var laus til ráðstöfunar af því að hann fékk sparnaðinn í arf. Hann ákvað að taka út hluta af honum í janúar og aftur í febrúar. Hann fór á skrifstofu Vinnumálastofnunar í febrúar til að ganga frá atvinnuleysisskráningu sinni.

„Ég ákvað að nefna það að ég hefði tekið sparnaðinn út til að fá hann ekki í bakið síðar. Minn réttur til að fá atvinnuleysisbætur núllast við þetta því að þetta eru tekjur hvernig sem þær eru tilkomnar," segir Sveinn og kveðst að auki ekki hafa getað skráð sig atvinnulausan út af sparnaðinum.

Sveinn minnir á að í undirbúningi sé að opna fyrir séreignarlífeyrissparnaðinn í landinu. „Vafalaust eru margir sem hafa áhuga á að nýta sér það til að bjarga húsum og börnum en átta sig ekki á því að þar með fyrirgera þeir sínum rétti til atvinnuleysisbóta."

Hjá Vinnumálastofnun fást þau svör að allar tekjur geti haft áhrif á atvinnuleysisbætur, líka fjármagnstekjur. Almenna reglan sé sú að frítekjumarkið sé rúmar 52 þúsund krónur og fólk geti haft tekjur upp að því marki án þess að bæturnar skerðist. Séreignarsparnaðurinn eigi hins vegar ekki að hafa áhrif á atvinnuleysisskráninguna. Fólk geti skráð sig atvinnulaust þó það hafi þessar tekjur. Misskilningur hljóti að hafa orðið þegar Sveinn fékk þær upplýsingar.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra telur rétt að fara yfir reglurnar í ljósi aðstæðna svo samræmis gæti í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin sé að beita sér fyrir. „Ég mun óska eftir því að þetta verði sérstaklega skoðað," segir hún. - ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×