Erlent

Hu mætti ekki á leiðtogafund

Gráir fyrir járnum Kínverskir hermenn fjölmenna þessa dagana í Urumqi, höfuðborg Xinjiang-héraðs.
nordicphotos/AFP
Gráir fyrir járnum Kínverskir hermenn fjölmenna þessa dagana í Urumqi, höfuðborg Xinjiang-héraðs. nordicphotos/AFP

Hu Jintao, forseti Kína, sneri heim frá Ítalíu í gær vegna átakanna í Xinjiang-héraði. Hann mætti því ekki á leiðtogafund G8-ríkjanna, þar sem þau átök hefði væntanlega borið á góma.

Fjölmennt viðbótarherlið var sent á vettvang í gær. Meðal annars mátti sjá hundruð hermanna fylkja liði á aðaltorgi Urumqi, höfuðborgar héraðsins.

Hundruð manna hafa látið lífið síðustu daga í átökum milli Úígúra og Han-Kínverja, en ekki er vitað hvernig tala hinna látnu skiptist milli þessara tveggja þjóða.

Li Zhi, formaður kínverska Kommúnistaflokksins, sagði að herinn myndi grípa til harðra aðgerða. Hann sagði fjölmarga hafa verið handtekna, og sagði að ofbeldismenn verði teknir af lífi.

Han-Kínverjum hefur fjölgað jafnt og þétt í héraðinu síðustu áratugina, eftir að það var innlimað í Kína í kjölfar skammvinns sjálfstæðistímabils.

Úígúrar, sem hafa búið í héraðinu öldum saman, vilja margir hverjir segja skilið við Kína og eru afar ósáttir við vaxandi ítök Han-Kínverja, sem eru meira en 90 prósent íbúa Kína.

Upp úr sauð um síðustu helgi eftir að Úígúrar efndu til mótmæla í höfuðborginni. Úígúrar segja átökin hafa byrjað eftir að lögregla beitti mótmælendurna hörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×