Innlent

Utanríkisráðuneytið: Allt sett á fullt ef Obama kemur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sækir Ísland heim ef ákveðið verður að í Reykjavík verði skrifað undir nýtt samkomulag um fækkun kjarnavopna.

Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir í samtali við fréttastofu að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi fundinn. Ráðuneytið hafi þó verið í sambandi við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi vegna málsins. Íslendingar muni að sjálfsögðu setja allt á fullt við undirbúning verði ákveðið að halda fundinn hér.

Það var fréttavefur The New York Times sem sagði frá því á miðvikudaginn að það kæmi til greina að undirrita samkomulagið í Reykjavík, en jafnframt kæmu borgirnar Genf í Sviss og Helsinki, höfuðborg Finnlands, til greina.

Líklegt þykir að bæði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og leiðtogar Rússlands, verði viðstaddir undirritunina. New York Times segir að unnið sé hörðum höndum að gerð samkomulagsins og björtustu vonir standi til að þeirri vinnu ljúki áður en Obama haldi í Evrópureisu í næstu viku. Heimildarmaður blaðsins úr Hvíta húsinu telur þó líklegra að undirritað verði rétt fyrir áramót.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×