Lífið

Þvottalaugaganga í dag

Listahátíð í Reykjavík og listamannahúsið START ART standa fyrir glæsilegum gjörningi tileinkuðum þeim konum sem þvoðu þvott í gömlu þvottalaugunum í Laugardal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lilstahátíð í Reykjavík.

Stór hluti gjörningsins er ganga sem hefst við útitaflið á Lækjartorgi kl.13.00 í dag. Gengið verður frá Lækjartorgi, upp Laugaveginn, inn í Laugardal og endað við gömlu Þvottalaugarnar.

Göngufólkið er beðið að hafa með sér ver, handklæði eða flík sem tengir það saman í göngustraumi sem liðast óslitinn upp allan Laugaveginn og á leiðarenda.

Við upphaf og lok göngunnar verða uppákomur og einnig á sjálfri göngunni. Í START ART verður sýning og sápugerð og fólki boðið til virkrar þátttöku.

Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til þess að taka upp gönguskóna og taka þátt.

Þeir sem þegar hafa boðað komu sína eru: Parabólur, Léttsveit Reykjavíkur, Hörður Bragason og Kormákur Geirharðsson, Dómkórinn, Hildur Guðný Þórhallsdóttir, Mánakórinn, Harmónikkusveitin Vaskar konur, Páll Guðmundsson frá Húsafelli, Kvennakirkjan, Skólahljómsveit Austurbæjar, Trommusveit Austurbæjarskóla, Listaháskólinn og Una Þorleifsdóttir.

Í framhaldi af göngunni, eða kl. 15.00 fremur Íslensk grafík óvæntan gjörning á Lækjartorgi í tilefni 40 ára afmælis félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.