Skilanefnd Hróarskeldubanka hefur tilkynnt að hún muni fara fram á ákæru á hendur fyrrverandi bankastjóra bankans, Niels Valentin Hansen. Þá hefur hún ákveðið að höfða skaðabótamál á hendur honum. Þetta kom fram í dönskum fjölmiðlum í gær. Danska fjármálaeftirlitið hefur þegar hafið vinnu við gerð ákæru.
Í nýrri skýrslu, sem unnin var um aðdragandann að falli bankans í ágúst í fyrra, kemur fram að líklega hafi fjölmörg lögbrot verið framin við stjórn bankans. Þar beri Hansen langmesta ábyrgð. Sjálfur hefur hann hafnað ábyrgð á vandræðunum. Hansen er meðal annars grunaður um umboðssvik og að hafa látið bankann kaupa stóra hluti í sjálfum sér í hlutafjárútboði. Við hvoru tveggja getur legið fangelsisrefsing.
Einnig er talið að endurskoðunarfyrirtækið Ernst og Young verði ákært fyrir „gagnrýnisverðar aðgerðir“.
Samkvæmt dönskum fjölmiðlum íhuga hluthafar bankans einnig að fara í skaðabótamál á hendur Hansen, og jafnvel einnig Sören Kaare-Andersen, sem tók við af Hansen árið 2007, en Hansen stýrði bankanum frá árinu 1978.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sögðust í Fréttablaðinu í gær myndu fylgjast með málinu. - sh