Innlent

Búið að veiða 110 hvali

Langreyður Veiðst hafa 64 langreyðar það sem af er ári, en kvótinn er 150 dýr. Fréttablaðið/Vilhelm
Langreyður Veiðst hafa 64 langreyðar það sem af er ári, en kvótinn er 150 dýr. Fréttablaðið/Vilhelm

Veiddir hafa verið samtals 110 hvalir við strendur landsins í sumar samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Um fjórðungur hrefnukvótans hefur verið veiddur og innan við helmingur langreyðarkvótans.

Fyrsta langreyðurin veiddist um miðjan júní, og síðan hafa 64 dýr verið dregin á land, 33 tarfar og 31 kýr. Frá því fyrsta hrefnan veiddist í lok maí hafa 46 hrefnur veiðst, 8 kýr og 38 tarfar. Samkvæmt veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar má veiða 200 hrefnur og 150 langreyðar á árinu 2009.

Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna, segist ekki endilega gera ráð fyrir því að það takist að veiða upp í allan hrefnukvótann enda sé það ekki markmið í sjálfu sér. Kvótinn hafi verið aukinn úr 100 dýrum í 200 dýr í júní þegar allar ráðstafanir hrefnuveiðimanna hafi miðað við að veiða 100 dýr.

Gunnar Bergmann segir sölu hrefnukjöts hafa gengið vonum framar.

„Fram að þessu höfum við ekki fryst eitt einasta kjötstykki. Þetta hefur allt farið ferskt á innanlandsmarkað, enda líklega eitt vinsælasta grillkjöt sumarsins.“- bj , - th




Fleiri fréttir

Sjá meira


×