Erlent

Bretar birta öll samskipti við Skota vegna al Megrahi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta.

Bresk stjórnvöld munu í dag birta öll samskipti sín við þau skosku varðandi lausn Ali Mohmed al Megrahi úr skosku fangelsi.

Al Megrahi var fundinn sekur um að hafa sprengt farþegaþotu Pan American-flugfélagsins, hið örlagaríka flug 103, í loft upp yfir skoska bænum Lockerbie 21. desember 1988. Hann var þó ekki handtekinn fyrr en árið 1999 og þá ásamt Al Amin Khalifa Fhimah sem síðar var sýknaður.

Al Megrahi sat hins vegar í fangelsi fyrir ódæðið, sem varð 270 manns að bana, þar til honum var sleppt nú fyrir skemmstu af mannúðarástæðum en hann þjáist af krabbameini. Getgátur hafa verið uppi um að frelsi hans sé þó til komið af öðrum ástæðum og tengist olíuvinnslu British Petroleum í Líbýu, heimalandi al Megrahi. Þessu neita stjórnvöld og mun Gordon Brown í dag birta opinberlega öll samskipti breskra og skoskra stjórnvalda sem máli skipta vegna málsins.

Skoski dómsmálaráðherrann Kenny MacAskill hefur fallist á þetta og fullyrðir að engin annarleg sjónarmið búi að baki frelsi Líbýumannsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×