Innlent

Enginn tók eftir myrkari Reykjavíkurborg

„Við byrjuðum á þessu í ágúst, það hefur enginn tekið eftir þessu hingað til," segir Sighvatur Arnarson, skrifstofustjóri á framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar vegna sparnaðaraðgerða borgarinnar með því að minnka götulýsingu í höfuðborginni.

Borgin hóf að minnka lýsingu síðasta sumar en Sighvatur segir fáa hafa orðið vara við breytingarnar þar til eftir að sagt var frá málinu í fjölmiðlum. Þó hafi nokkrir athugulir spurst fyrir um lýsinguna að sögn Sighvats.

Breytingin er sú að það kviknar síðar á götulýsingum í borginni og hún slokknar fyrr. Sighvatur segir að nú kvikni á ljósastaurum sjö mínútum síðar og slokkni sjö mínútum fyrr.

Birtustigið eins og það var áður en því var breytt, voru 50 Lúx, en það er mælieining fyrir ljós. Nú er birtan 20 Lúx og er það sambærilegt við það sem gengur og gerist á Norðurlöndum.

Sighvatur segir einn misskilning hafa vaknað vegna málsins og hafi hann fengið nokkrar fyrirspurnir þess eðlis, það er að ljósastaurar gefi frá sér daufari birtu. Hann segir það ekki raunina, slíkt sé reyndar tæknilega ómögulegt.

Með þessum aðgerðum vonast Sighvatur til þess að spara borginni um 40-50 milljónir króna. Hann segir upphæðina kannski ekki mikla en allt telji á þessum síðustu og verstu tímum.

Inn í þessum sparnaðaraðgerðum er einnig minna viðhald á götulýsingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×