Innlent

Ungt fólk í mestum vanda

Frá ársfundi ASÍ í október 2008.
Frá ársfundi ASÍ í október 2008.
Ungar barnafjölskyldur eru viðkvæmastar gagnvart kreppunni. Þetta er skuldsettasti hópurinn sem er með hlutfallslega hæstu greiðslubyrðina og flest börn á framfæri. Þetta kemur fram í nýrri samantekt hagdeildar Alþýðusambandsins um skuldir heimilanna.

,,Líkur eru til þess að í þessum hópi séu einnig flestir þeir sem komið hafa inn á húsnæðismarkaðinn með lítið eigið fé á síðustu tveimur árum og sitja nú í yfirveðsettum eignum," segir á vef ASÍ.

Í samantektinni kemur einnig fram að staðan valdi mörgum heimilum verulegum vanda en hjá flestum er vandinn þó tímabundinn og úrræði í boði sem gera fólki kleift að vinna sig út úr honum með tímanum.

,,Sá hópur sem við þurfum sértæk úrræði fyrir til þess að forða frá gjaldþroti, eru þau heimili sem í fyrirsjáanlegri framtíð munu ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum og hafa verulega neikvæða eignarstöðu sem ólíklegt er að þeim takist að snúa við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×