Innlent

Umferðaröryggisgjald á fölskum forsendum

Sérstakur skattur sem lagður er á alla bíleigendur til að auka umferðaröryggi verður tekinn yfir í ríkishítina og framlög til umferðaröryggis skorin niður sem honum nemur. Bíleigendur verða hins vegar áfram látnir borga skattinn.

Í hvert sinn farið er með bíl á skoðun þurfa bíleigendur að greiða þennan skatt, en einnig við skráningu ökutækis og við eigendaskipti. Umferðaröryggisgjald, 400 krónur, bætist í hvert skipti ofan á annan kostnað.

Ráðherrar hafa jafnan fylgt þessum skatti úr hlaði með fögrum fyrirheitum eins og síðast þegar Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, tvöfaldaði skattinn með þeim rökum að eðlilegt þætti að skjóta styrkari stoðum undir öflugt umferðaröryggisstarf og tryggja fjármuni til þess til frambúðar.

Núverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, sagði á Alþingi í morgun að fyrrverandi fjármálarráðherra hefði markað þá stefnu að taka peningana yfir í ríkissjóð en ekki nota þá í umferðaröryggi, 70 milljónir króna.

Það ætla því að verða örlög umferðaröryggisgjaldsins, eins og margra annarra skatta, sem settir eru á upphaflega með háleit markmið í huga, að þau verkefni eru skorin burt en skatturinn lifir áfram. Samgönguráðherra segir þó að ákvörðun liggi ekki fyrir um niðurskurðinn. Miklir peningar hafi verið í þessu undanfarið. Þeir minnki núna eitthvað á þessum erfiðleikatímum en þetta komi að sínu mati ekki niður á umferðaröryggi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×