Innlent

Yrði svartur blettur á stéttinni

leigubíll Talsvert er um að taxamerkjum sé stolið af leigubílum, að sögn formanns Frama.
leigubíll Talsvert er um að taxamerkjum sé stolið af leigubílum, að sögn formanns Frama.

„Þetta er mjög slæmt mál og við vonum að þessi einstaklingur finnist sem fyrst, hvort sem hann er löglegur í stéttinni eða ekki. Samkvæmt lýsingu lögreglu liggur fullt af mönnum undir grun.“

Þetta segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, um meint kynferðisbrot leigubílstjóra gagnvart konu sem var ofurölvi aðfaranótt 29. nóvember.

Ástgeir segir hafa borið á því að undanförnu að taxamerkjum sé stolið af bílum. Þarna gæti því hugsanlega verið á ferðinni einstaklingur sem sé ólöglegur í leigubílaakstri.

„Við höfum fylgst með þessu að undanförnu og það er heilmikið um að menn séu að stunda akstur án leyfis, og þá á ómerktum bílum að sjálfsögðu. Dags daglega myndi fólk ekki nota svona þjónustu en að næturlagi um helgar er það í alls konar ástandi, hugsar fyrst og fremst um að komast heim og lætur því miður slag standa.“

Á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi eru 560 leyfishafar, að sögn Ástgeirs. Hann segir menn ekki vera mikið að kíkja í kringum sig þegar vitlaust sé að gera um nætur.

„En það yrði vissulega svartur blettur á stéttinni ef þarna reyndist vera um að ræða einstakling úr röðum leigubílstjóra.“

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×