Innlent

Íslensk hross send til Mexíkó í fyrsta sinn

Talsvert umstang er í kringum það að flytja hross til annarra landa allt árið um kring. En svo gefast rólegri stundir inni á milli eins og þessi mynd ber með sér.
Talsvert umstang er í kringum það að flytja hross til annarra landa allt árið um kring. En svo gefast rólegri stundir inni á milli eins og þessi mynd ber með sér.

Sjö folöld eru nú á leiðinni frá Íslandi til Mexíkó. Þetta ungviði er fyrstu íslensku hrossin sem flutt eru héðan þangað til lands. Þau eru í löngu og ströngu ferðalagi, því það tekur að minnsta kosti tíu daga með hvíldar­stoppum.

Það er hin kunna hestakona Hulda Gústafsdóttir á Árbakka í Rangárvallasýslu sem hafði veg og vanda af útflutningnum. Ásamt eiginmanni sínum, Hinriki Bragasyni, rekur hún fyrirtækið Hestvit ehf. sem annast meðal annars útflutning hrossa.

„Þetta kom þannig til að þýsk kona sem búsett er í Mexíkó hafði samband við mig,“ greinir Hulda frá. „Hún bað mig um að aðstoða sig við að finna út úr því hvernig hægt væri að flytja hross frá Íslandi til Mexíkó. Hún var búin að ákveða að reyna þetta en var ekki komin með tengilið hingað til lands, annan en þann sem hún var að hugsa um að kaupa folöldin af. Hún vildi ekki festa sér þau fyrr en hún sæi fram á að þetta væri hægt.“

Þegar ljóst var að hægt væri með góðu móti að flytja hross um þennan langa veg keypti konan, Regina Hof, folöldin sjö. Um er að ræða tvö hestfolöld og fimm hryssur. Þau eru litskrúðug mjög, meðal annars moldótt, skjótt og leirljós. Regina átti íslensk hross meðan hún bjó í Þýskalandi og Hulda segir hana greinilega hafa langað til að breiða útfagnaðarerindið í Mexíkó eftir að hún var flutt þangað. Hulda segir að Regina hafi jafnvel verið að íhuga að senda folöldin með flugi til Evrópu og svo þaðan til Mexíkó­borgar.

„Við könnuðum þennan möguleika, en sáum svo að það var auðveldara að senda þau eftir öðrum leiðum,“ segir Hulda. Folöldin fóru því með flugi hinn 25. nóvember til New York, þar sem þau þurftu að dvelja í þrjá daga í einangrun. Nú eru þau á leiðinni gegnum Bandaríkin í flutningabílum með hvíldarviðkomu á nokkrum stöðum.

„Þeim heilsast vel og við hlökkum til að frétta af þeim þegar þau eru komin á áfangastað,“ segir Hulda.

Spurð hvort hún viti hvort íslenskir hestar séu fyrir í Mexíkó kveðst hún ekki vita til þess að svo sé. Þá hafi Regina grennslast fyrir um það eftir að hún flutti og enn ekki fundið neina Íslandshesta.

„En nú segist hún vita hvernig flytja eigi hross frá Íslandi til Mexíkó og það er helst á henni að heyra að folöldin verði bara fyrsta sendingin af fleirum á milli landanna.“jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×