Innlent

Sjóslys við Skrúð: Fékk á sig brotsjó

MYND/Óðinn Magnason

Komið er í ljós að bátnum, sem hlekktist á við eynna skrúð í gærmorgun, hvolfdi, eftir að hafa fengið á sig brotsjó.

Um er að ræða 15 tonna plastbát sem er yfirbyggður að framan, og höfðu mennirnir tveir sem á honum voru, keypt hann á Vopnafirði og ætluðu að sigla honum til Reykjavíkur. Sjóveður var gott á þeim slóðum þar sem slysið varð, en kunnugir sjómenn segja að hættulegar öldur geti myndast á skerjum austan við Skrúð, með ákveðnu samspili undiröldu og hafstrauma. Líklegt er nú talið að það hafi gerst.

Báðir mennirnir voru inni í yfirbyggingu bátsins þegar honum hvolfdi og komst annar út og í gúmmíbjörgunarbát, en hinn drukknaði um borð.

Eftir slysið maraði báturinn nánast í kafi og þannig var hann dreginn að bryggju undir kvöld. Fannst þá lík mannsins, sem var um sextugt. Sá sem komst lífs af er um þrítugt og verður honum leyft að jafna sig áður en lokaskýrsla verður tekin af honum. Þetta var fyrsta banaslys á sjó við strendur Íslands í tæp tvö ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×