Innlent

Fjögur og hálft ár fyrir að nauðga og lemja barnsmóður sína

Karlmaður var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í morgun fyrir nauðgun og hrottalega líkamsárás gagnvart barnsmóður sinni. Honum var einnig gert að greiða miskabætur að upphæð 1.200.000 krónur. Árásin var nokkuð harkaleg og var tekið tillit til þess í dómnum en konan hlaut mikla áverka.

Í ákærunni er manninnum gert að sök að hafa nauðgað konunni með því að hafa ráðist að henni í mars á síðasta ári, hrint henni í stofugólfið þar sem hann sparkaði í hana. Einnig veitti hann henni fjölda hnefahögga í höfuð og líkama, reif í hár hennar, sló höfði ítrekað í gólfið og þvingaði hana til samræðis og endaþarmsmaka.

Einnig var hann ákærður fyrir líkamsárás að morgni sama dags en þá réðsist hann gegn henni í eldhúsi og sló hana mörgum hnefahöggum, einkum í kvið, bak og höfuð, auk þess að trampa á konunni þar sem hún var í hnipri á eldhúsgóflinu.

Í ákæru segir að við þetta hafi hún hlotið fjölda marbletta á báðum handleggjum og vinstri fótlegg, glóðarauga á báðum augum, mar á nefi, hægra eyra og gagnaugum, bólgu á efri vör og sprungu í slímhúð þar fyrir innan, brot úr tönn í efri kjálka vinstra megin, kúlu á enni og margar kúlur í hársverði, mikil eymsli á milli herðablaða, yfir hægra herðablaði og í kviði.

Í dómnum segir að sannað sé að konan hafi orðið fyrir líkamsárás og nauðgun af hendi ákærða, sem getur um ókomna framtíð valdið henni erfiðleikum.

Með hliðsjón af öllum atvikum, líkamlegum og andlegum afleiðingum líkamsárásarinnar og vættis brotaþola fyrir dómi, þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur með vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×