Erlent

Æðstapresti Jedi reglunnar hent út úr stórmarkaði

Æðsti presturinn Daniel Jones (til hægri) mundar geislasverðið.
Æðsti presturinn Daniel Jones (til hægri) mundar geislasverðið.

Stofnandi Jedi kirkjunnar sem styðst við trúar- og lífsskoðanir Jedi riddaranna í Star Wars myndunum íhugar nú að fara í mál við Tesco verslanakeðjuna í Bretlandi. Æðstipresturinn Daniel Jones, 23 ára gamall maður frá Wales, sem einnig gengur undir nafninu Morda Hehol, segir farir sínar ekki sléttar af viðskiptum sínum við öryggisverði Tesco. Þeir hentu honum út úr búðinni vegna þess að hann neitaði að fara úr skikkjunni sem allir sannir Jedi meistarar ganga ævinlega í.

Að sögn Jones er það í samræmi við Jedi trúnna að ganga ævinlega í skikkjunni á opinberum stöðum og því hafi verið brotið gróflega gegn rétti hans og trú. Meðlimir Jedi kirkjunnar eru raunar fjölmargir um allan heim og staðhæfir Jones að hálf milljón manna séu í söfnuði hans.

Talsmaður Tesco tók hinsvegar til varna og staðhæfir að allir Jedi riddarar séu velkomnir í Tesco hvenær sem er, svo lengi sem þeir taki af sér skikkjuna. „Obi-Wan Kenobi, Yoda og Logi Geimgengill sáust allir án skikkju sinnar á einhverjum tímapunkti í Star Wars myndunum án þess að það orsakaði það að þeir gengu á band hins illa," sagði talsmaðurinn, greinilega vel að sér í Star Wars fræðunum.

„Hér hjá Tesco munum við raun ar aðeins eftir einum í Star Wars sem aldrei tók af sér skikkju sína og það var illi keisarinn Palpatine."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×