Skráning í Wacken hafin

Skráning í hljómsveitakeppnina Metal Battle 2010 er hafin. Sigurvegararnir spila í lokakeppninni sem fer fram á þungarokkshátíðinni Wacken Open Air sem er haldin í ágúst ár hvert í Þýskalandi. Alls halda 26 þjóðir Wacken-undankeppnir og þetta verður í annað sinn sem Ísland tekur þátt. Fyrr á þessu ári vann hljómsveitin Beneath íslensku keppnina og spilaði síðan á Wacken. Hún hefur nú landað plötusamningi við erlent útgáfufyrirtæki. Á meðal hljómsveita á Wacken á næsta ári verða Iron Maiden, Slayer, Mötley Crüe og hin íslenska Sólstafir. Umsóknarfrestur vegna undankeppninnar rennur út 20. janúar. Keppnin fer síðan fram 13. mars á Sódómu Reykjavík.