Erlent

Bresk geimferðastofnun væntanleg

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mars. Hver veit nema einhver Bretinn fái sér tesopa þar á næstu árum eða áratugum?
Mars. Hver veit nema einhver Bretinn fái sér tesopa þar á næstu árum eða áratugum?

Bretar hyggjast setja á stofn sína eigin geimferðamiðstöð hvað sem öllum niðurskurði líður. Breska geimferðastofnunin verður eins konar bresk útgáfa af NASA en væntanlega öllu smærri í sniðum.

Bretar verja nú þegar 270 milljónum punda á ári í geimvísindi og eftir þriggja mánaða fundahöld, kostnaðarathuganir og rannsóknir ákvað Lord Drayson, vísindamálaráðherra Bretlands, að stofna það sem í framtíðinni mun bera nafnið British Space Agency. Nýja stofnunin mun koma fram fyrir Bretlands hönd í öllum geimferðatengdum málum, svo sem samskiptum við Evrópsku geimferðastofnunina og þá bandarísku en ekkert hefur verið látið uppi um það enn þá hvort Bretar hyggist hleypa af stokkunum sinni eigin geimferðaáætlun en vitað er um áhuga þeirra á að taka þátt í mönnuðum leiðöngrum til tunglsins og Mars í samvinnu við aðrar þjóðir.

Richard Peckham, formaður UK Space, regnhlífasamtaka alls geimvísindatengds iðnaðar í Bretlandi, segir þetta góðar fréttir og auk þess að færa Breta nær himingeimnum og rannsóknum á honum muni hin nýja stofnun skapa fjölda starfa sem síst væri vanþörf á þessa dagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×