Innlent

Segir sjóðinn vera arf frá gömlum tíma

Sérstakt atvinnuleysistryggingakerfi hefur verið rekið fyrir smábátasjómenn, vörubílstjóra og bændur, sem eru með eigin rekstur. Sjóðurinn hefur verið fjármagnaður af tryggingagjaldi þessara stétta.
Sérstakt atvinnuleysistryggingakerfi hefur verið rekið fyrir smábátasjómenn, vörubílstjóra og bændur, sem eru með eigin rekstur. Sjóðurinn hefur verið fjármagnaður af tryggingagjaldi þessara stétta.

 „Ég sé engin sérstök rök fyrir því að halda þessum sjóði sérgreindum frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er eðlilegt að við séum með eitt og sama kerfið fyrir alla landsmenn,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Sá sjóður var settur á fót 1997 og falið að halda sérstaklega utan um atvinnuleysisbótarétt bænda, smábátasjómanna og vörubílstjóra.

Sjóðurinn greiddi 14 einstaklingum 8,7 milljónir í bætur á síðasta ári, eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudag. Hann er fjármagnaður af tryggingagjaldi stéttanna þriggja, sem nam alls 15 milljónum króna á árinu 2008. Kostnaður við rekstur hans nam 3,3 milljónum króna. „Þetta er arfur frá gömlum tíma,“ segir Árni Páll.

Félagsmálanefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar frumvarp frá Árna Páli um endurskoðun ýmissa ákvæða í atvinnuleysislöggjöfinni. „Ég hef þegar beint því til nefndarinnar að kanna þetta mál og hvort ekki sé rétt að nota tækifærið og sameina þennan sjóð Atvinnuleysistryggingasjóði,“ segir Árni Páll. „Ég hef talað fyrir því að hér sé eitt kerfi fyrir alla.“

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga starfar í þremur deildum, einni fyrir bændur, annarri fyrir smábátasjómenn en þeirri þriðju fyrir vörubifreiðastjóra. Þegar lög um sjóðinn voru sett vorið 1997 kom fram hjá nefnd sem samdi frumvarpið að skoðaðir hefðu verið möguleikar á að setja á laggirnar einn sjóð fyrir alla sjálfstætt starfandi einstaklinga en niðurstaða nefndarinnar hefði orðið sú að stofna einungis sjóð fyrir þá sjálfstætt starfandi einstaklinga „sem tilheyra þeim samtökum sem áttu fulltrúa í nefndinni“.

Á þeim tíma voru um 20.000 sjálfstætt starfandi einstaklingar í landinu; um 5.500 þeirra tilheyrðu þeim hópum sem fengu aðild að Tryggingasjóðnum. Við álagningu skatta á þessu ári greiddu 19.266 einstaklingar tryggingagjald, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Ekki fengust upplýsingar um hve margir þeirra eru bændur, smábátasjómenn og vörubifreiðastjórar. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur smábátasjómönnum og vörubifreiðastjórum, sem eru með rekstur á eigin kennitölu og eiga rétt til bóta úr sjóðnum, fækkað talsvert á síðustu árum, eftir því sem hlutafélögum hefur fjölgað.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×