Innlent

Nota Netið helst til leikja

Úr myndsafni.
Úr myndsafni.

Nær 80 prósent barna á aldrinum níu til sextán ára sögðust helst vera í leikjum þegar þau eru á Netinu að því er fram kemur í nýrri könnun. Samfélag, fjölskylda og tækni, vakningarátak um örugga netnotkun barna og unglinga (SAFT), stóð fyrir könnuninni sem gerð var síðastliðið vor. Sambærileg könnun var gerð fyrir þremur árum og sögðust þá ríflega 80 prósent barna helst vera í leikjum þegar þau væru á Netinu. Tæp 70 prósent þátttakenda í könnuninni sögðu foreldra sína þekkja mikið eða nokkuð mikið til þeirra leikja sem þau spila á Netinu.

„Það er ánægjulegt að foreldrar eru farnir að þekkja leiki sem börnin spila í auknum mæli en áður," segir Guðberg K. Jónsson, verkefnastjóri hjá SAFT. Hann segir mikilvægt að foreldrar viti að mikið sé til af góðum tölvuleikjum sem séu gagnlegir og fræðandi. „Við bendum foreldrum á að skoða aldursmerkingar á tölvuleikjum sem keyptir eru handa börnum og sömuleiðis að fylgjast með leikjum sem börn eru í á Netinu."

Guðberg segir að á heildina litið séu niðurstöður könnunarinnar jákvæðar. Meðal annars kemur fram í henni að meirihluti barna spilar tölvuleiki í innan við klukkustund þegar spilað er á Netinu, 65 prósent spila ein þegar þau eru á Netinu, 26 prósent með fjölskyldu og vinum í sama herbergi og 24 prósent með fjölskyldu og vinum á Netinu. 15 prósent spila við fólk í útlöndum sem þau þekkja ekki.

Einnig var gerð könnun á meðal foreldra um hversu mikið eftirlit er haft með tölvuleikjanotkun barna þeirra.

51 prósent foreldra sagðist hafa frekar mikið eftirlit með tölvuleikjanotkun barna, 28 prósent sögðust hafa mjög mikið eftirlit með henni, 17,5 prósent höfðu ekki mikið eftirlit og 3,4 prósent ekkert. Hefur þeim foreldrum sem hafa lítið eða ekki mikið eftirlit með tölvuleikjanotkun barna fjölgað um rúm þrjú prósent frá árinu 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×