Innlent

Framkvæmdastjóri SI: Verktökum blæðir út

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Jón Steindór Valdimarsson
Jón Steindór Valdimarsson

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Jón Steindór Valdimarsson, gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega í pistli sem birtist á heimasíðu samtakanna í dag undir yfirskriftinni Kjaftshögg. Þar segir hann verktakastarfsemi í landinu blæða út og kallar sykurskatt vitleysu.

„Það er tvennt sem við gerum að umtalsefni," segir Jón Steindór í samtali við Vísi. „Í fyrsta lagi ganga menn vasklega fram í að skera niður vegaframkvæmdir og virðast ekki hafa í huga það sem við höfum talað mikið um; að halda uppi framkvæmdastigi í landinu."

„Hitt atriðið er skattlagningin á það sem menn kalla sykurvörur. Útfærslan á henni er sú versta sem hægt er að hugsa sér," segir Jón sem heldur því fram að hægt hefði verið að ná sama árangri með skilvirkari og betri aðferðum sem hann lýsir í pistlinum.

Hann gefur aðspurður lítið fyrir þær skýringar heilbrigðisráðherra að um tannvernd sé að ræða: „Þetta er tekjuöflun og ekkert annað."

Hann segir hljóðið í aðilum Samtaka iðnaðarins þungt.

„Ekki bæta þessi skilaboð sem við þykjumst lesa úr aðgerðum ríkisstjórnarinnar úr. Þessi útfærsla bitnar fyrst og fremst á íslenskum framleiðendum og framleiðsluvörum."

Pistil Jóns Steindórs má lesa í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×