Erlent

Sólstöðum fagnað við Stonehenge

Óli Tynes skrifar

Stonehenge var reist í þrem áföngum á árunum þrjúþúsund til sextánhundruð fyrir Krist.

Enginn veit hvers vegna en ýmsar getgátur hafa verið settar fram. Meðal annars að þetta hafi verið lækningastaður og að þetta sé fornt dagatal himintungla.

Löng hefð er fyrir því að fólk safnist saman við Stonehenge á sumarsólstöðum.

Í gær féllu þær á helgi og mannfjöldinn því enn meiri en venjulega. Lögreglan telur að þar hafi verið um þrjátíu og fimm þúsund manns.

Allt fór þó friðsamlega fram. Stonehenge er á Salisbury sléttunni um 130 kílómetra suðvestur af Lundúnum.

Það er einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum Bretlands og árlega leggja yfir 750 þúsund manns leið sína þangað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×