Innlent

Dómur yfir Lalla Johns mildaður

Lalli Johns - stjörnuglæpon.
Lalli Johns - stjörnuglæpon.

Síbrotamaðurinn og stjörnuglæponinn Lalli Johns var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Hæstarétti Íslands í dag en áður hafði Héraðsdómur Suðurlands dæmt hann í tíu mánaða fangelsi.

Lalli var ákærður fyrir innbrot í Hveragerði í júní á síðasta ári. Húsráðandi varð var við Lalla þegar hún kom heim úr vinnunni til þess að setja þvott í þvottavélina. Þá heyrði hún hurð lokast og áttaði sig strax á því að einhver annar væri í húsinu. Konan reyndi að opna svefnherbergishurðina og tókst að lokum. Sá hún þá Lalla standa í herberginu og skartgripi sem hún átti fyrir aftan hann.

Hún þekkti Lalla strax, enda sennilega einhver frægasti ógæfumaðurinn á Íslandi.

Þegar konan sá skartgripina á rúminu sínu reiddist hún mikið. Hún spurði hann hvern fjandann hann væri að gera. Lalli neitaði ítrekað að hann hefði stolið skartgripunum og bætti því að kona hefði verið með honum, ljóshærð, en hún farið út á Heilsustofnun. Hann hafi einfaldlega ætlað að finna síma til þess að hringja í hana.

Kvaðst konan þá hafa tekið í jakkaboðunginn á Lalla og dröslað honum með sér inn í stofu til að komast í síma. Því næst hefði hún hringt á Heilsustofnunina og beðið um aðstoð sem hefði borist strax. Bað hún starfsfólk að leita um allt hælið að konunni sem aldrei fannst.

Næst kom lögreglan sem handtók Lalla og bjargaði úr klóm konunnar. Fangelsisdómurinn er óskilorðsbundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×