Innlent

Nafnlausar ábendingar um bótasvik geta verið tilhæfulausar

Ingimar Karl Helgason skrifar
Dæmi eru um að nafnlausar ábendingar almennings um bótasvik reynist tilhæfulausar með öllu. Fólk hefur sent Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóra um þrjú hundruð ábendingar um svik.

Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóri eru í samstarfi um að taka við ábendingum um bótasvik og skattsvik. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafa frá því í maí borist um 200 ábendingar um að fólk taki við atvinnuleysisbótum, en sé samt í vinnu. Ríkisskattstjóra höfðu í morgun borist um eitthundrað ábendingar um hugsanleg skattsvik.

Bæði er um að ræða ábendingar um fyrirtæki, þar sem talið er að fólk fái borgað undir borðið, en líka að fólk, í skjóli nafnleyndar, bendi á tiltekna einstaklinga og segi þá svíkja út bætur. En er að marka þetta allt?

Hjá Vinnumálastofnun fengust þær upplýsingar að sannarlega væru dæmi um að ábendingar reyndust tilhæfulausar. Í sumum tilvikum hefði fólk verið á atvinnuleysisskrá, en síðan farið í vinnu; eða jafnvel að það hefði yfirleitt ekkert til saka unnið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru tilhæfulausar ábendingar þó í miklum minnihluta og í flestum tilvikum sé hægt að nýta ábendingarnar með einum eða öðrum hætti. Starfsmenn ríkisskattstjóra sögðust í morgun ekki hafa upplýsingar um réttmæti ábendinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×