Innlent

Ný nefnd skoðar úrræði fyrir skuldara

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra og þingmaður Samfylkingar.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra og þingmaður Samfylkingar. Mynd/Anton Brink

Sett verður á fót nefnd til að endurskoða úrræði fyrir heimili í greiðsluerfiðleikum að því er kemur fram í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Þá mun nefndin einnig leggja fram tillögur um leiðir til að styrkja stöðu lántakenda á fjármálamarkaði.

Mun nefndin meðal annars endurskoða úrræði um greiðsluaðlögun og kanna hvort breyta þurfi þeim skilyrðum sem sem um úrræðin gilda. Þá mun hún kanna hvort meðferð greiðsluaðlögunnar eigi betur heima innan stjórnsýslunnar en sem verkefni dómstóla.

Þá mun hún endurmeta reglu um að afborganir gangi fyrst til greiðslu kostnaðar og vaxta og fleiri atriði sem teljast sérstaklega íþyngjandi fyrir skuldara.

Einnig mun hún leita leiða til að koma böndum á hámark innheimtukostnaðar lögmanna.

Ekki þótti þörf á að koma á fót nýjum úrræðum vegna húsnæðisskulda, þar eð reglugerð sem sett var í júní veitir lánveitendum heimild til að fella niður skuldir einstaklinga án þess að afskriftin reiknist til skatts. Þannig geti lánastofnanir komið til móts við einstaklinga í miklum erfiðleikum án þess að grípa þurfi til greiðsluaðlögunar fyrir dómstólum.

Nefndin er stofnuð að frumkvæði ráðherranefndar félags- og tryggingamálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra sem hefur að undanförnu farið yfir aðgerðir stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×