Íslenska leikkonan Anita Briem var meðal boðsgesta þegar hinn glæsilegi staður, The Conga Room, var enduropnaður eftir miklar breytingar fyrr í þessum mánuði.
Meðal eigenda The Conga Room eru sjónvarpsleikarinn Jimmy Smiths sem áhorfendur Skjáseins kannast við úr Caine, söng-og leikkonan Jennifer Lopez og körfuboltahetjan Baron Davis. Enginn hörgull var á stórstjörnum í partíinu en meðal þeirra sem skemmtu sér konunglega voru leikkonurnar Eva Longoria og Jessica Alba. Þá skorti ekkert upp á smástirnin sem þrífast á mannfögnuðum á borð við þennan en þeirra á meðal var fyrrum Boston Legal-stjarnan Dylan McDermot.
Kvikmynd Anitu, Journey 3-D, mæltist vel fyrir og fékk ágætis viðtökur í bandarískum kvikmyndahúsum. Leikur hennar í annarri seríu af The Tudors hefur einnig vakið mikla athygli og samkvæmt síðustu fréttum mun Anita leika eitt aðalhlutverkanna í kvikmyndinni The Storyteller á móti Idol-stjörnunni Katherine McPhee.
The Conga Room er á besta stað í Los Angeles, beint á móti Staple Center, heimavelli Los Angeles Lakers. The Conga Room var upphaflega hugsað til að koma tónlistarmönnum frá Suður-Ameríku á framfæri og var starfræktur á árunum 1997 til 2006. Nýir eigendur staðarins hafa í hyggju að færa aðeins út kvíarnar og bjóða upp á aðeins „almennari“ skemmti-atriði.
freyrgigja@frettabladid.is





