Innlent

Brugðist við slæmu lundavarpi

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær nýjar reglur um nytjar á lunda fyrir komandi lundaveiðitímabil. Um er að ræða tilraun til að bregðast við slæmum varpárangri lundastofnsins í Vestmannaeyjum á undaförnum árum og um leið að styðja við eftirlit og rannsóknir á stofninum.

Bjargveiðimenn hafa að auki nýlega samþykkt að stytta lundaveiðitímabilið og munu þeir hefja veiðar 10. júlí í stað 1. júlí áður. Veiðin mun síðan eingöngu standa til 31.júlí en ekki til 15. ágúst eins og venjan er. Ákveðið hefur verið að endurskoða þá dagsetningu í lok júlí og framlengja þá tímabilið inn í ágúst ef þurfa þykir.

Á fréttavefnum Eyjar.net segir jafnframt að í ,,reglum þeim er bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær segir m.a. að veiði á heimalandinu verði bönnuð með öllu nema í gegnum veiðifélög sem hafa umsjón og eftirlit með veiðunum og greiði gjald fyrir nytjarétt líkt og önnur úteyjarfélög."

Í greinagerð bæjarstjórnar með nýju reglunum segir einnig að lundaveiði sé mikilvægur hluti af menningu Vestmannaeyja og því telur bæjarstjórnin nauðsynlegt að bregðast við til að sporna við frekari minnkun lundastofnsins í Vestmannaeyjum og um leið auka líkur á sjálfbærri nýtingu stofnsins um ókomin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×