Sport

Svíar atkvæðamestir á NM í karate um helgina

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Verðlaunahafar í -75 kg flokki í kumite. Ari Sverrisson er þriðji frá vinstri.
Verðlaunahafar í -75 kg flokki í kumite. Ari Sverrisson er þriðji frá vinstri.

Norðurlandameistaramót í karate fór fram í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Keppendur voru tæplega fimmtíu talsins frá öllum Norðurlöndunum auk Eistlands.

Keppt var bæði í kata og kumite sem eru hinar tvær hefðbundnu keppnisgreinar í karate. Í kata framkvæmir keppandinn röð varna og árása án andstæðings og þarf þar að sýna skilning á þeirri tækni sem hann framkvæmir auk réttrar líkamsstöðu og -beitingar. Kumite er bardagi tveggja einstaklinga þar sem ákveðnar reglur gilda um snertingu við andstæðinginn auk þess sem keppandinn verður að beita raunhæfri tækni og hafa fulla stjórn á henni.

Í kumite var keppt í þyngdarflokkum, opnum flokkum og liðakeppni, hvort tveggja í karla- og kvennaflokkum. Keppnislega var um að ræða sterkt mót því keppendur á mótið eru aðeins valdir sem fulltrúar viðkomandi lands.

Það voru Svíar sem fengu flest verðlaun á mótinu, 4 gull, 4 silfur og 6 brons. Finnar og Norðmenn komu þar á eftir. Íslendingar fengu þrenn bronsverðlaun, þau hlutu Hekla Helgadóttir í kata kvenna, Andri Sveinsson í kumite -80 kg og Ari Sverrisson í kumite -75 kg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×