Innlent

Grímseyjarferjan kostaði 533 milljónir króna

Grímseyjarferjan Sæfari er byrjuð að flytja fólk til og frá eynni.
Grímseyjarferjan Sæfari er byrjuð að flytja fólk til og frá eynni. MYND/Stöð 2

Endanlegur kostnaður við Grímseyjarferju reyndist 533 milljónir króna sem ríflega þreföld sú upphæð sem fyrsta kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vegagerðarinnar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferjunni Sæfara.

Ferjan var nýverið tekin í gagnið og í skýrslunni er farið ítarlega yfir atvik málsins frá því í febrúar 2004 og fram í ágúst 2007 þegar Grímseyjarferjumálið var í hámæli.

Meginmarkmið náðust

Samkvæmt helstu niðurstöðum skýrsluhöfunda náðust meginmarkmiðin, það er að Sæfari uppfyllir allar kröfur um þær siglingar sem skipinu er ætlað. Aðstaða farþega hafi verið stórbætt, siglingartíminn hafi styst umtalsvert og kostnaðurinn hafi verið mun minni en við nýsmíði þótt hann sé ekki sá sem stefnt hafi verið að í uppharfi. Bent er á að ný ferja hefði kostað um 700 milljónir ef ákveðið hefði verið að ráðast í hana vorið 2006.

Bent er á að ýmislegt hefði mátt betur fara, til dæmis hefði verið betra að skipa strax í upphafi verkefnishóp til að fylgjast með verkinu. Skoða hefði átt skipið, Oileain Arann, betur áður en gengið var frá kaupum og hönnungargöng hefðu í upphafi þurft að vera nákvæmari og betri. Þá hefði átt að gera meiri kröfur til verktaka.

Fyrsta kostnaðaráætlun vegna skipsins hljóðaði upp á 150 milljónir króna en þá var ekki gert ráð fyrir neinum meiri háttar breytingum á skipinu og miðað við viðgerð í Austur-Evrópu. Hins vegar hafi áætlunin hækkað um 220-225 milljóir króna eftir að óskir komu frá Grímseyingum og áhöfn um endurbætur og breytingar. Segir í skýrslunni að ljóst sé að gera þurfi verklagsreglu um gerð kostnaðaráætlana og tryggja að gert sé áhættumat og óvissumat. Þá þurfi upplýsingagjöf til samgönguráðuneytis að vera formlegri.

Vegamálastjóri ber ábyrgð hafi fjárreiðulög verið brotin

Skipið var keypt á 103,2 milljónir króna í apríl 2004 en stærstur hluti viðbótarkostnaðar er verkkaup, eða tæpar 284 milljónir króna.

Í skýrslunni segir enn fremur að gert hafi verið ráð fyrir fjármagni til endurnýjunar á Grímseyjarferju í samgönguáætlunum en það var lítt sýnilegt. Það hafi verið á ábyrgð vegamálastjóra hafi fjárreiðulög verið brotin með því að nýta ónýttar fjárheimildir en ljóst sé að þau lög séu ósveigjanleg og taki lítt mið af hraða í ákvörðunum og framkvæmdum í nútímaþjóðélagi.

Verkframkvæmd fór úr böndunum

Um verkframkvæmdina segir í skýrslunni að útboðsgögnum vegna endurbóta og breytinga hafi verið breytt á útboðstíma og slakað á gæðakröfum til verktaka. „Það er óheppilegt," segir Vegagerðin. Einnig hafi í upphafi verið fjallað of óskipulega um breytingar og viðbætur.

„Óskir Grímseyinga um breytingar og viðbótarverk á síðari stigum komu gjarnan beint til verktaka frá samgönguráðuneyti. Framganga aðalverktakans var með öllu óviðunandi og í hefðbundnu verki fyrir Vegagerðina hefði verksamningi verið rift en samkvæmt upphaflegri áætlun átti verkinu að vera lokið 30. september 2006. Endurskoðaðar áætlanir um verklok 1. mars 2007, 29. maí 2007 og 28. október 2007 stóðust ekki. Skipið var afhent 11. apríl 2008. Vegna tafa og erfiðra samskipta við aðalverktaka verksins hefur allur eftirlits- og lögfræðikostnaður orðið mun meiri en eðlilegt getur talist. Með verkefnishópi skipuðum í upphafi verks hefði líklega mátt koma í veg fyrir þetta og þá með því að grípa til ákveðnari aðgerða þegar verkframkvæmd fór úr böndunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×